Innskráning í Karellen
news

Agalotan okkar

28. 08. 2022

Hjallastefnan byggir skólaárið upp á 6 lotum sem eru allar hluti af því sem við köllum kynjanámskrá Hjallastefnunnar og er í raun okkar viðbót við Aðalnámskrá leikskólanna.

Loturnar skiptast í félagsfærni lotur og einstaklingsfærni lotur. Stúlkur þurfa alla jafna á einstaklingsþjálfun að halda og drengir meiri félagsþjálfun en öll börnin okkar fá þetta allt og alhæfingar gilda aldrei enda við jafn ólík og við erum mörg.

En fyrsta lota hvers skólaárs er agalota. Agalotan fellur undir félagsþjálfun sem byggir upp sjálfsstjórn, sjálfsaga og felur í sér ákveðið jafnrétti þar sem við vinnum með eftirfarandi lykilhugtök: virðingu, hegðun, kurteisi og framkomu.

Agalotan eða hegðunarkennslan er unnin í kærleika, gleði og í gegnum fjör og leiki og agi er í raun jákvætt hugtak og við setjum það þannig fram.

Jákvæður agi skapar rósemd og streitulaust umhverfi þar sem við getum öll notið okkar.

Röð, regla og rútína er í fyrirrúmi í öllu starfinu. Það að börnin vita til hvers er ætlast af þeim, hvar við erum stödd í dagskránni okkar, hvar þeirra sæti er og hvar þeirra pláss er í röðinni verður til þess að þau finna öryggið sitt og ná ákveðnum slaka í deginum sínum sem er dýrmætt og gefur ákveðna ró.

Við æfum okkur í að stjórna höndum, virða mörk, kurteisi og bera virðingu fyrir öðrum.

Hjá yngstu börnunum felst hegðunarkennslan í einföldum hlutum eins og að passa hendurnar sínar, nota fallega orðið “takk” og “má ég fá…” Og að læra að ganga í röð með kennaranum sínum.

Eftir því sem þau eldast verða verkefnin flóknari og gera meiri kröfur á þau. Það getur t.d. verið að læra að bíða þar sem er verið að skiptast á af fullkomnu jafnrétti, að æfa sig í að nota jákvætt tungutak og koma fram af kurteisi.

Við notum skemmtilegar fyrirmælaæfingar eins og stopp dans, að hlaupa/ganga frá einum stað til annars og æfum okkur í að fylgja fyrirmælum kennara um hvenær á að fara af stað eða stoppa. Allar svona skemmtilegar æfingar skila því að börn læra að hlusta og fara eftir því sem þau eru beðin um að gera.

Svo er eitt sem skiptir afar miklu máli þegar við gefum börnum fyrirmæli og það er að segja börnum hvað þau eigi að gera og sleppa því að segja þeim hvað þau eigi ekki að gera. Dæmi: Ef barn er að sulla með vatnsglas við matarborðið þá er betra að segja því að drekka vatnið í stað þess að segja ekki sulla. Börn heyra nefnilega ekki alltaf "ekki" og "hættu". Við notum líka mikið hugtakið að vera með mjúkar vinkonu- og vina hendur þegar við kennum yngstu börnunum okkar að passa hendurnar. Við segjum ekki "bannað að lemja" eða "ekki slá vin þinn eða vinkonu" því að við viljum alltaf kenna börnunum hvað þau eigi að gera "Ekki segja ekki" er okkar mottó!

Ef börn ruglast þá er þeim boðið að prófa aftur með bros á vör. Við vitum að æfingin skapar meistarann og við lærum best með því að fá að æfa okkur. Börn sem eru að læra að ganga fá hvatningu þó þau detti aftur og aftur og þannig er það líka með annað nám, hvatning og æfing skilar ótrúlegum árangri. Og röð, regla og rútína er algjört lykilatriði, regla sem gildir í dag en ekki á morgun nýtur aldrei brautargengis og geðþóttaákvarðanir eiga litlu láni að fagna.

Við bendum á að hlaðvarpið í Hjallastefnan heima - #2 Kærleiksríkur agi - er frábær ef þið viljið ganga í takt við okkur og fræðast enn meira.

Mörgum foreldrum finnst gott að fylgjast með hvar við erum stödd í lotunum okkar svo hægt sé að fylgja því eftir heima og þið sjáið á heimasíðunni okkar í hvaða lotu við erum og hvert lykilhugtak vikunnar er.

Hlaðvarpið má finna á öllum helstu streymisveitum eins og Podcast og Spotify.

© 2016 - Karellen