Innskráning í Karellen
news

Aðventan

02. 12. 2021

Kæru vinkonur og vinir.

Senn gengur aðventan í garð með öllum sínum hefðum. Því fylgir oft álag og þá sérstaklega fyrir barnafjölskyldur. Okkur í Hjallastefnunni langar að deila með ykkur hugleiðingum okkar á þessum annasömu tímum.

Öll vitum við að hin sönnu verðmæti í lífinu eru andlegs eðlis og að börnin eru það dýrmætasta sem við eigum. Hjallastefnan sem uppeldis- og menntastefna lítur á það sem samfélagslega ábyrgð sína að skapa góða skóla fyrir börn, skóla sem auðga samfélagið og styðja þar með við fjölskyldur. Enginn er eyland og það þarf heilt þorp til að ala upp barn. Góð samskipti, innihaldsríkar samverur, einlægni og kærleikur er það sem gefur lífinu gildi.

Eitt af okkar meginstefum í Hjallastefnunni er það viðhorf að við höfum alltaf val í lífinu. Í gegnum iðkun og með kærleiksríkum aga kennum við börnunum okkar, oft á dag, að þau hafi val um hegðun, viðbrögð, viðhorf, leik og að vera góð vinkona og góður vinur. Við kennum börnum að sjá það jákvæða í aðstæðum og gera gott úr málunum. Við kennum þeim að velja hegðun sem styður við þau og við kennum þeim að standa með sínu vali. Ramminn er einfaldur og skýr. Það er magnað að sjá fjögurra ára barn á valfundi. Í upphafi valfundar er hægt að velja um sjö svæði en þegar kemur að barninu að velja eru kannski bara tvö svæði í boði, barnið gerir gott úr því og velur sér svæði með bros á vör. Barnið horfir á það sem það hefur val um en ekki valsvæðin sem því langaði meira til að velja og eru fokin.

Í grunninn höfum við alltaf val í lífinu, í öllum aðstæðum. Við getum valið að sjá það sem er í boði fyrir okkur og valið að þakka fyrir það, við getum valið viðhorf og viðbrögð ef við höfum ekki stjórn á öðru en því. Til að taka okkur þetta val þurfum við að stíga inn í augnablikið, vera kjarkmikil og fara af sjálfstýringunni. Þannig valdeflum við okkur. Við þurfum að spyrja okkur áleitinna spurninga og þora að taka afstöðu og standa með okkar vali.

Aðventan býður upp á mörg frábær tækifæri til að æfa okkur í að velja og skapa þar með tilveru fyrir börnin okkar. Tökum sem dæmi jóladagatöl, allt er í þróun og dagatölin hafa breyst með tíð og tíma. Síðustu ár hafa svokölluð samveru- og fjölskyldudagatöl verið vinsæl. Áður en við bætum einhverju inn í líf okkar getum við staldrað við og tekið afstöðu sem þjónar okkur. Er innihald dagatalsins að bæta líf okkar og að skapa gleði innan fjölskyldunnar? Eða er það enn ein viðbótin um að standa sig? Það má hugsa út fyrir kassann og sleppa dagatali ef það þjónar þér og þínum betur. Hér skilar heiðarleikinn okkur bestu niðurstöðunni. Það má skipta um skoðun og það má fá nýja hugmynd og velja að láta ekki trufla sig hvað aðrir eru að gera. Foreldri sem velur að standa með sér og að vera sátt við sitt framlag í lífinu er að gefa börnunum sínum dýrmæta gjöf. Að velja að vera sátt/ur fæðir af sér skýra hugsun og hugarró.

Góðar hugvekjur eiga alltaf við. Lífið streymir til okkar og er allskonar – það er víst. Það sem við getum unnið með og haft stjórn á eru viðhorf okkar og viðbrögð í aðstæðum. Meginregla 1 innan Hjallastefnunnar er að mæta hverju barni eins og það er, þar sem það er statt og virða þarfir þess. Þegar við verðum fullorðin getum við valið að vera sú manneskja fyrir okkur sjálf. Við mætum okkur þar sem við erum stödd og spyrjum okkur hvað við þurfum til að vera sátt og taka ábyrgð á okkar líðan. Þarf ég hvíld? Þarf ég aðstoð? Langar mig til að dansa og syngja með barninu mínu/börnunum mínum og skapa gleðistund? Hvaða hefðir úr minni æsku vil ég halda í og gefa áfram? Hverju vil ég breyta? Í Hjallastefnunni göngum við alltaf út frá því að einfaldleikinn vinni með okkur. Okkar reynsla er að í einfaldleikanum eru tækifærin, við erum oft að flækja málin að óþörfu. Höfum engu að síður í huga að minn einfaldleiki er ekki endilega sá sami og þinn. Skiljum hismið frá kjarnanum, það opnar á að VERA og að sjá hvort annað hér og nú.

Til að þér gangi vel þá velur þú þína leið. Það sem skiptir okkur öll mestu máli eru raunveruleg og góð tengsl við aðra og að líða vel í eigin skinni. Börn skynja tilfinningar okkar, ef við erum sátt við okkur sjálf og okkar framlag þá eru börnin það líka og í rauninni alsæl. Munum að einfaldleikinn vinnur með okkur.

© 2016 - Karellen