Innskráning í Karellen
news

Fróðleiksmolar um agalotu

29. 08. 2023

Hjallastefnan byggir skólaárið upp á sex lotum sem eru allar hluti af því sem við köllum kynjanámskrá Hjallastefnunnar. Loturnar skiptast í félagsfærnilotur og einstaklingsfærnilotur. Stúlkur þurfa alla jafna meiri einstaklingsþjálfun eins og að efla sjálfstæði og drengir þurfa meiri félagsþjálfun eins og sjálfsstjórn og samskipti en öll okkar börn fá þjálfun í öllum lotum þar sem við erum jafn ólík og við erum mörg og alhæfingar gilda aldrei.

Fyrsta lota skólaársins er agalota sem fellur undir félagsþjálfun og byggir upp sjálfsstjórn og sjálfsaga og felur í raun í sér ákveðið jafnrétti þar sem við vinnum með eftirfarandi lykilhugtök: virðing, hegðun, kurteisi og framkoma. Agaþjálfun eða hegðunarkennsla er gerð í kærleika, gleði og í gegnum fjör og leiki. Við lítum á aga sem jákvætt hugtak og vinnum með hann þannig. Jákvæður agi skapar rósemd og streitulaust umhverfi þar sem við getum öll notið okkar. Röð, regla og rútína er í fyrirrúmi í öllu okkar starfi. Það að börnin viti til hvers er ætlast af þeim, hvar við erum stödd í dagskránni okkar, hvar þeirra sæti er á samverumottu eða við matarborðið og hvar þeirra staður er í röðinni verður til þess að þau finna öryggið sitt og ná ákveðnum slaka í deginum sínum sem er dýrmætt og gefur ákveðna ró. Þó svo að ramminn sé skýr og dagskipulag og rútína í föstum skorðum þá er flæði og frelsi mikið innan rammans. Við æfum okkur að stjórna höndum, virða mörk annarra, við æfum kurteisina okkar og að sýna okkur sjálfum og öðrum virðingu. Hjá yngstu börnunum felst hegðunarkennsla í einföldum hlutum eins og að passa hendurnar sínar, raða skónum sínum í hólfið sitt, æfa sig að segja „takk fyrir“ og „má ég fá...“ og læra að ganga í röð með kennaranum sínum. Við göngum í röð á milli staða því það skapar rósemd innan skólans og börnin vita nákvæmlega til hvers er ætlast til af þeim þegar þau ferðast á milli staða sem veitir þeim öryggi. Eftir því sem þau eldast verða verkefnin flóknari og gera meiri kröfur á þau. Til dæmis að læra að bíða þar sem verið er að skiptast á í fullkomnu réttlæti, að æfa sig í að nota jákvætt tungutak, koma af kurteisi fram við aðra og bera virðingu fyrir umhverfinu sínu og efniviðnum sem þau nota dags daglega í leikskólanum. Við notum ýmsar æfingar og leiki til að þjálfa sjálfsstjórn eins og fyrirmælaæfingar, stoppdans og ýmsa regluleiki. Allar svona skemmtilegar æfingar skila því að börn læra að hlusta og fara efitr því sem þau eru beðin um að gera.

Það tungutak sem við notum mikið í agalotu og í öllu okkar starfi: 

Ég skal aðstoða þig svo þér gangi vel. 

Notum vina/vinkonuhendur. 

Við skulum æfa okkur að vera vinkonuleg/vinaleg. 

Kjörnum hendur og fætur svo við truflum ekki vini okkar og vinkonur. 

Við göngum í kórstöðuröð eða höldum í stél til að æfa okkur að ganga í röð. 

Það er í boði að... 

Látum ganga vel.

Við bendum á að hlaðvarpið Hjallastefnan heima, þáttur #2 Kærleiksríkur agi er frábær ef þið viljið ganga í takt við okkur og fræðast enn meira. https://open.spotify.com/episode/1h3txUQeKDf76Yojk... Á skóladagatalinu okkar sjáiði í hvaða lotu við erum stödd hverju sinni og hvert lykilhugtak vikunnar er

© 2016 - Karellen