Innskráning í Karellen

Þann 25. september 1989 opnaði Hafnarfjarðarbær leikskólann Hjalla í Hafnarfirði og réði til starfa leikskólastjórann Margréti Pálu Ólafsdóttur, sem þá hafði um árabil starfað sem leikskólastjóri hjá Reykjavíkurborg auk þess að starfa sjálfstætt við ráðgjöf fyrir dagvistarstofnanir. Margrét Pála lagði upp með allnýstárlega námsskrá fyrir leikskólann; kynjaskiptar deildir (sem hún að auki vildi ekki kalla deildir heldur kjarna!), engin leikföng og hugsýn um að allir ættu að vera vinir og hafa sama rétt og stunda jákvæð samskipti.


Árið 2000 stofnaði Margrét Pála fyrirtækið Hjallastefnuna ehf. til þess að geta tekið sjálf við rekstri Hjalla á grundvelli þjónustusamnings við Hafnarfjarðarbæ og rekur fyrirtækið nú einnig leik- og grunnskóla víða um landið. Hjallastefnan er svokallað „núll-rekstrarfyrirtæki" sem hefur það markmið eitt að stuðla að jafnrétti auk þess að reka góða skóla.

Námsskrá Hjallastefnunnar hefur notið sívaxandi velgengni og virðingar undanfarin ár og hefur hlotið sérstakt lof fyrir áherslu sína á jafnréttisuppeldi, þar á meðal hlaut Hjallastefnan viðurkenningu Jafnréttisráðs Íslands árið 1996 fyrir sérstakt átak í jafnréttismálum og Hjalli hlaut hvatningarverðlaun Jafnréttisnefndar Hafnarfjarðar árið 2001.

Hjallastefnan er nokkuð þekkt erlendis og skólarnir fá til sín hundruði erlendra gesta ár hvert.

© 2016 - Karellen