Innskráning í Karellen
news

Sjálfstæðislota

26. 09. 2022

Í dag hefst önnur lota kynjanámskrár Hjallastefnunnar ❤

Loturnar eru 6 yfir veturinn, 3 lotur sem eru einstaklingsmiðaðar og 3 lotur sem snúa að félagsfærni þáttum. Fyrsta lotan var Agalota og nú hefst Sjálfstæðislota.

Fróðleiksmolar um sjálfstæðislotu.

Önnur lota skólaársins er sjálfstæðislota sem er einstaklingsfærnilota. Lykilorð lotunnar eru sjálfstyrking, sjálfstraust, öryggi og tjáning. Eftir agalotuna eiga börnin að vera orðin örugg í sínum hópi með sínum kennara og búin að finna öryggi í dagskránni okkar. Þá tekur við þessi frábæra lota í sjálfstæði þar sem kennarinn getur meira einblínt á hvert barn fyrir sig og reynt að efla það í sjálfstæði og sjálfsöryggi.

Athygli og hvatning til allra og að byggja upp sjálfsmynd barna er kjarninn í sjálfstæðislotu þar sem kennarar leggja sig fram við að nálgast hvert og eitt barn þar sem það er statt. Ætlunin er að styrkja hvert barn svo það geti notið sín innan hópsins. Kennarinn leggur sig fram við að taka eftir og tala um kosti og styrkleika hvers barns svo hvert og eitt þeirra fái viðurkenningu á mikilvægi sínu og tilverurétti.

Framsagnaræfingar eru mikið notaðar þar sem börnin æfa sig að vera miðpunktur athyglinnar, fyrst fyrir sinn hóp, síðan fyrir kjarnann og svo jafnvel á söngfundi. Þau fá að segja fréttir að heiman, sögu, brandara eða syngja. Einnig eru oft unnin fjölskylduverkefni í lotunni þar sem börnin fá að segja frá og sýna myndir af fjölskyldunni sinni.

Við hrósum okkur sjálfum og horfum á okkur í spegli og finnum hvað er fallegt og gott við okkur.

Þjálfun í að tjá tilfinningar er mikilvægur þáttur í sjálfstæðislotu t.d. með því að ræða hvernig þeim líður og hvað er hægt að gera við mismunandi líðan.

Börnin eru þjálfuð í að tjá vilja sinn og skoðanir á opinn og heiðarlegan hátt. Við leggjum áherslu á að börnin fái eitthvað um starfið að segja, eins og að koma með hugmyndir að hópatímum.

Fyrir yngstu börnin snýr þessi lota að miklu leyti um að æfa sig að klæða sig, æfa sig í frágangi eftir val og hópatíma, æfa sig að borða sjálf og allt sem valdeflir þau og gerir þau sjálfstæðari.

Orðræða lotunnar:

  • Við ausum hrósi yfir börnin og upphefjum við hvert tækifæri og sérstaklega ef þau sýna sjálfstæði og frumkvæði.
  • Við gefum leyfi fyrir mistök og segjum „gengur betur næst“ og „gerist á bestu bæjum“
  • Við notum mikið kynhlutlausa hróshorðið frábær en einnig flink/flinkur, flott/flottur, „Þú getur þetta“ „vel gert“
  • Við reynum að tala mikið til hvers og eins barns með nafni, þegar við bjóðum góðan dag og kveðjum sem dæmi.
  • Við styrkjum „ég“ hugsun „Ég er...“„Mér líður...“ og „Mér finnst....“.
  • „Viltu prófa fyrst og svo skal ég aðstoða þig“

© 2016 - Karellen