Innskráning í Karellen
news

Jákvæðnilota

13. 01. 2023

Fróðleiksmolar um jákvæðnilotu.

Jákvæðnilota er upphaf nýrrar annar og er frábært að slá jákvæðan takt inn í skólastarf vorannar. Við iðkum vitaskuld jákvæðni allt skólaárið en nú er kjörið tækifæri til að formgera jákvæðni æfingarnar. Það er mikilvæg geðvernd fólgin í því að rækta jákvætt hugarfar og bjartsýni og í lotunni eiga börn að læra aðferðir til þess. Gleðin er æfð með öllum tiltækum ráðum eins og söng, dansi, hláturjóga, hreyfingu og allskonar verkefnum sem vekja gleði og kátínu. Við þjálfum okkur í að skilja hvað jákvæð afstaða til lífsins þýðir. Við syngjum morgunsöng og bjóðum góðan dag og ákveðum í leiðinni að dagurinn verði góður.

Góðan dag kæra jörð.

Góðan dag kæra sól.

Góðan dag kæra tré

og blómin mín öll.

Sæl fiðrildin mín

og Lóan svo fín.

Góðan dag fyrir þig,

góðan dag fyrir mig.

Þú sólargeisli sem gægist inn

og glaður skýst inn um gluggann minn.

Mig langar svo til að líkjast þér

og ljósi varpa á hvern sem er.

Einnig má nefna lítið dæmi eins og hvernig við tölum um veðrið eða matinn sem við borðum. Er til vont veður eða er bara til allskonar veður? Við hvetjum börnin til að segja „þetta er ekki fyrir minn smekk“ frekar en að segja að einhver matur sé vondur. Samhliða vinnum við verkefni sem þjálfa börnin í að setja mörk fyrir sig sjálf sem þau tjá vinum sínum eða vinkonum af ákveðni en á elskulegan hátt. „Viltu hætta að trufla mig kæra vinkona/kæri vinur“ er til dæmis mjög falleg leið til að setja mörk fyrir sjálfa/n sig í staðinn fyrir að nota nöldurtón. „Nú skaltu hugsa um þig“ segjum við oft til að fá barn til að einbeita sér að sér sjálfu í stað þess að vera einbeita sér að því hvað vinur eða vinkona er að gera eða ekki gera. Ekki segja ekki er mikið áhersluatriði í jákvæðnilotu. „Það er í boði að ganga frá skónum sínum“ í staðinn fyrir að vera alltaf að stöðva neikvæða hegðun með því að segja „ekki skilja skóna eftir á miðju gólfinu“.

Við viljum gera börnunum það ljóst hvað við viljum að þau geri í staðinn fyrir hvað við viljum ekki að þau geri, nota skýr en fá orð og endurtaka ef þarf. Mistök eru meistaraverk! Okkur getur öllum mistekist og þá er mikilvægt að skella ekki skuldinni á viðkomandi eða koma inn samviskubiti. Mistökin eru til að læra af þeim. Við notum mikið „gengur bara betur næst“ og „þetta kemur fyrir á bestu bæjum“.

Við getum allt með jákvæðnina að vopni og kennum jákvæð viðbrögð þegar eitthvað kemur upp.

  • Lítum á björtu hliðarnar

  • Notum mjúkar vina/vinkonu hendur

  • Finnum gleðina okkar

  • Notum glöðu/hraustu röddina

  • Gerum gott úr málunum

  • Látum okkur ganga vel

  • Finnum glaða svipinn okkar

  • Gerum okkar besta

  • Með bros á vör






Skólafréttir

fréttir25 .11. 2022

Aðventa hefst

fréttir07 .11. 2022

Samskiptalotan

fréttir26 .09. 2022

Sjálfstæðislota

fréttir28 .08. 2022

Agalotan okkar

fréttir02 .12. 2021

Aðventan

fréttir16 .08. 2021

Hjalli er hnetufrír skóli

Sjá meira

Viðburðir í uppsiglingu

20.01. - Bóndadagskaffi

10.02. - Skertur dagur - Hjalli opnar kl. 10

13.02. - Vináttulota

17.02. - Konudagskaffi

20.02. - Bolludagur

Hjalli, Hjallabraut 55 | Sími: 565-3060 | Netfang: hjalli@hjalli.is

© 2016 - Karellen

© 2016 - Karellen